Monday, September 26, 2011

Fjölskylduskipti og ferðalagið til San Juan




Einhverjir hafa beðið eftir að fá að vita hvað þetta “óvænta” er sem ég talaði um í síðasta bloggi, en fleiri hafa komist að því. Þannig liggja málin að ég hef nú skipt um fjölskyldu. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar, aðallega vegna þess að ég átti erfitt með að aðlagast. En þar sem Gúggúltransleit er að hjálpa mörgum hér að til að lesa bloggið mitt mun það gera þetta blogg ekki eins persónulegt, því miður.
Nýja fjölskyldan ber nafnið Codorniu-Ale og henni tilheyra mamma (Andrea), pabbi (Mario), 2 bræður (Germán '94 og Elias '96) og systir (Guadalupe (Leila)).
Ég þekkti þessa fjölskyldu fyrir og hef áður bloggað um hana, Germán hefur verið góður vinur minn síðan ég kom hingað til San Luis. Ég mun einnig þurfa að skipta um skóla og fara í sama skóla og bræður mínir, San Luis Rey. Það eru kostir og gallar við skólaskiptin. Gallarnir eru að sjálfsögðu þeir að ég hef kynnst frábærum krökkum í Condarco og eignast frekar nána vini í honum. Kostirnir myndi ég segja að ég mun upplifa miklar breytingar því að nýji skólinn minn er kaþólskur einkaskóli og leggur miklar kröfur til nemenda. Eitthvað sem mig hefur líka alltaf langað til þess að upplifa er að vera í skólabúning.
Þegar ég kom til fjölskyldunnar fór ég mjög fljótt að sofa því við þurftum að vakna snemma morguninn eftir því við vorum að fara í  ferðalag til San Juan, sem er mun stærri borg við hliðin á San Luis.





Á leiðinni um morguninn sá ég allskonar gerðir af trjám, furðuhlutum og dauða rotnandi beljubeinagrind á hliðargötunum. Einnig sá ég mikla fátækt, fjölskyldur sem hafa ekki efni á nauðþurftum og búa í moldarkofum búnir til úr trjágreinum. Við stoppuðum við eyðimörk og löbbuðum um hana í smá stund.


Eftir rúma fjóra klukkutíma vorum við komin til San Juan og liðu þessir tímar bara frekar hratt. Pabbi, þú getur farið með mig til Hveragerðis á hverjum degi þegar ég kem heim... bara eins og að skreppa í bæinn fyrir mig. Við gistum á heimili ömmu þeirra og afa, þau reka sjoppu sem er hluti af íbúðinni þeirra. Í San Juan á til með að koma vel kröftugir jarðskjálftar af og til og seinasti var fyrir rúmum 30 árum síðan og eyðilagði hann algjörlega húsið. Þau hafa byggt það upp að nýju en það er mun minna en það var, sem er í lagi því þau búa bara tvö þarna krúttin.
Ég fór síðan með Germán og Mario niðrí bæ á aðal square-ið hérna sem er huges. Þar var ótrúlega mikið af fólki því það var dagur nemenda og sá dagur er alltaf haldinn hátíðlegur. En önnur ástæða fyrir Argentínubúa til að taka sér frí og detta í það!

Um kvöldið var svo matarboð hjá Javier frænda krakkanna. Nánast öll fjölskylda þeirra búa hérna í San Juan þannig ég mun koma til með að vera mjög mikið hérna, stundum nokkrum sinnum í mánuði. Sem er ekkert nema gott! San Juan er snilld!







Þetta kvöld var ótrúlega fallegt, húsið hans Javiers er rosa flott með sundlaug í bakgarðinum og að sjálfsögðu asado-grill (stórt útigrill til þess að grilla nautakjöt og fleira). Á meðan við biðum eftir matnum spiluðum við við krakkanna. Himininn var spectacular, hafði aldrei séð svona áður. Javier ákvað að byrja að kalla mig "Pepe" því að einhverja hluta vegna er erfitt að bera fram nafnið mitt, eins auðvelt og það nú er. Kjötið var að sjálfsögðu grillað með fullkomnum argentínskum hætti og brá mér heldur 
betur í brún þegar ég sá það áður en það fór í eldinn.

Svínalíkaminn eins og hann lagði sig.
Hef samt aldrei smakkað jafn gott svínakjöt! Borðaði allt of mikið... eins og alla aðra daga hérna.







Morguninn eftir fór ég og Germán með mömmu að versla á verslunargötunni og ég fjárfesti í sokkum, því allir sokkarnir mínir virðast hafa tekið sér sumarfrí fyrsta mánuðinn hér í Argentínunni, bara horfnir. 

Sama dag pökkuðum við öllu niður í tösku og héldum til Jáchal, sem er bærinn þar sem Mario fæddist og var uppalinn, rúmlega klukkutíma frá San Juan. Þessi bær er rosalega rólegur en mjög undarlegur. Bræðurnir sögðu mér að hér væri margskonar furðuhlutir á ferli og sagt er að nornir komi frá þessum bæ. Fólk hefur séð ýmsa hluti hérna. Ég átti bágt með að halda inn í mér hlátrinum því ég er ekki svo auðtrúa. En það er samt satt að þessi bær er mjög undarlegur.

Í þessum bæ búa margir fjölskyldumeðlimir þeirra. Við vorum mikið hjá frændfólki þeirra. Þar búa þau tvö með fjórar litlar stelpur. Yngsta stelpan var hrædd við mig allan tíman sem ég var þarna. Ég er greinilega eitthvað ógnvekjanlegur.
Við gistum á hóteli þennan tíma, og að sjálfsögðu fékk ég að sofa í hjónarúminu. Það þýðir ekkert annað. Ég gat allavega rúllað mér í fjóra hringi í þessu rúmi án þess að klessa á vegginn.
Við þurftum að vakna fyrir allar aldir, eða klukkan rúmlega 9 um morguninn til þess að missa ekki af morgunmatnum. Hér drekka allir kaffi með mjólk. Meirisegja litlu börnin. Það er eiginlega bara strange að gera það ekki. En aumingja Pepe drekkur ekki kaffi og mun ekki koma til með að gera það... vonandi. Þannig ég fékk mér mjólk. Heita mjólk. Eins slæmt og það hljómar.

Við ákváðum um kvöldið að fara í lítinn tívolígarð sem er þarna í Jachál, ótrúlegt en satt. Rosa spes að í svona litlum bæ sé skemmtigarður. En það var þó nokkuð mikið af fólki þarna. Við löbbuðum um og skoðuðum tækin, sem voru alls ekkert til þess að kitla adrenalínstaugarnar neitt. Leila og Brenda (frænka hennar) fóru á teygjutrampólín og hoppuðu þar einhverja stund. Að sjálfsögðu ákvað ég að skella mér líka með Elias. Það fór frekar illa með Elias greyið því að teygjan hans strekktist á meðan hann var að hoppa og festist þannig. Ekki gott fyrir kúlurnar, þið karlmenn ættuð að þekkja þá tilfinningu. Það þurfti að kalla á hjálparmann til þess að losa hann úr teygjunni.
Ég skemmti mér samt konunglega.

Á laugardaginn fór ég í sveitina þeirra í Jachál, þar voru hestar, svín, kindur og einn hundur. Á þessum degi gleymdi ég myndavélinni minni á hótelinu og tók því myndir á myndavél fjölskyldunnar. Þær koma inn seinna. Við löbbuðum um sveitina og landslagið var rosalega fallegt. Mario ákvað svo að hlaupa á eftir kindunum og reyna að króa þær af. Svo drap hann eina kind, hengdi blóðuga ullina upp á band og hélt á skrokkinum. Ekki fögur sjón.

Eftir að hafa verið í sveitinni í þó nokkurn tíma vildi Mario ólmur sýna mér fjöll Argentínu. Við keyrðum upp fjall og vorum í mörg þúsund kílómetra fjarlægð. Þar var fáránlega fallegt. Ég var orðlaus af undrun yfir allri þessari fegurð. Fjöll, strendur, lækir, dalir. Þið fáið að sjá myndir bráðum!  Ég gæti skrifað svo mikið um þetta en ég ætla að reyna að stytta þetta blogg eins mikið og ég get.

Seinasta daginn fórum við aftur til San Juan og fórum í stærstu verslunarmiðstöðina þar. Þar keypti ég mér tösku fyrir tölvuna mína og fjólubláa DC derhúfu til þess að fá ekki sólsting aftur. Ég orðinn vel rauður eftir alla þessa sól og allan þennan hita. Síðan fórum við út og horfðum á kappakstur, sem var frekar nett. Eins og í Fast and the Furious.
Við keyrðum útum allt til að reyna að finna góðan veitingastað og fundum loksins stað. Amman og afinn komu líka, dúllurnar.

Klukkan var að ganga í hálf þrjú um nóttina þegar við fórum heim. Argentínubúar borða kvöldmat alltaf mjög seint, eða um rúmlega 12-1 leytið. Við sváfum eina nótt í viðbót og vöknuðum svo um morguninn og lögðum af stað um 2-3 til San Luis. Ég hefði getað skrifað miklu lengra blogg um þessa ferð en ég bara hreint út sagt nenni því ekki.

Elska ykkur samt alveg jafn mikið á Íslandi!

Þennan morgun hefði ég átt að byrja minn fyrsta skóladag í kaþólska einkaskólanum San Luis Rey hefði ég ekki verið veikur með hita, hálsbólgu og kvef eins og seinustu tvær vikurnar. Vel gert Rebbi... vel gert!



Chau!
ps. ég vil komment ;)



Wednesday, September 14, 2011

Væmnisþakkarkveðjur til ykkar og smá upplýsingar



Mig langaði að búa til annað blogg tileinkað ykkur öllum sem eru að styðja mig á meðan ég dvel hinum megin á hnettinum. Takk fyrir alla hjálpina. Það hjálpar mér að sjá commentin ykkar, að tala við ykkur um hluti sem skipta mig máli. Mig langar líka að segja ykkur að mér líður vel hérna, ég er í fallegum skóla með yndislegum krökkum. Ég elska Argentínu og ég elska San Luis. Ég elska skólann minn sem ég geng í og krakkana í honum. Ég hef eignast frábæra vini hérna í skólanum sem ég vonast til að koma til með að halda sambandi við sem lengst. Kennararnir í skólanum eru líka flestir ótrúlega opnir og skilningsríkir fyrir okkur skiptinemunum.
Skólinn minn er ótrúlega áhugaverður og hver veit nema ég komi heim sem arkitektúr.

Hlutir hér hafa verið sjokkerandi fyrir mig, ég sé hluti á hverjum degi sem ég er ekki vanur og mun taka mig langan tíma að venjast. En það er raunveruleikinn. Ég er að sjá heiminn í nýju ljósi og þetta er ómetanleg lífsreynsla sem mun styrkja mig sem manneskju. Mér hefur liðið vel hér og mér hefur liðið illa, en það er hluti af allri þessari reynslu. Ég hef verið í miklu menningarsjokki, enda er þetta allt öðruvísi en ég er vanur. En engu að síður fallegt. Argentína, er eins og flestir lesendur gera sér grein fyrir, ótrúlega fallegt land. Það er rosalega stórt, eða áttunda stærsta land í heimi. Þess vegna hefur það svo margt upp á að bjóða og sjá.

Ég vil gera það að markmiði allra að koma hingað einhverntíman og sjá hvað Argentína hefur virkilega upp á að bjóða (nú sound-a ég eins og glötuð ferðaþjónustaauglýsing). Argentína er þróaðasta landið S-Ameríku og hefur þar með marga möguleika hvað varðar nám. Hér er til dæmis frítt Wi-fi í allri Argentínu, hvar sem þú ert.  Ríkisstjórnin hefur skaffað hverjum einasta "secondary student" sína eigin skólatölvu, að því markmiði að kunna að nota tæknina.

Fyrir Íslendinga er rosalega ódýrt að búa í Argentínu. Að ferðast á milli staða í leigubíl kostar mjög lítið og hvað þá með "colectivos". Ein ferð með strætó hér kostar 1 pesó og 50 centavo. Sem er rúmar 20 krónur íslenskar. Matur hér er fáránlega ódýr fyrir mig, svo ég verð eiginlega smá að passa mig... þar sem margt smátt gerir eitt stórt. Líka bara upp á look-ið að gera. Maturinn hérna er ótrúlega góður. Mamma mín hérna er svaka góður kokkur. Ég elska matinn sem hún gerir!

Eins og þið sjáið nú er ég að reyna að vera skapandi og búa til einhver önnur blogg heldur en að segja frá vikudögunum mínum, því nú eru vikudagarnir mínir komnir svolítið í sama horf. Svolítið eins allir dagar, svo það er lítið að segja. Lífið gengur sinn vanagang, eins og margur skiptineminn hefur bloggað mjög oft. Ég skil þessa setningu mjög vel núna. Ég mun held ég ekki koma til með að blogga svona oft og hvað þá svona löng blogg eins og ég gerði fyrst. Ég mun segja frá aðalatriðunum hér.

Það hefur samt ekki allt verið dans á rósum hérna og nokkur vandamál hafa komið upp á. Ekkert sem ég vil mikið ræða um hér á blogginu mínu því gúggúl transleit er orðinn dágóður vinur flestra hér í Argentínunni. Ekki það að það sé eitthvað slæmt neitt. Eða jú svolítið. Þið fáið að vita meira um það mögulega í næsta bloggi. Því það er svolítið óvænt að fara að gerast, sem er svolítið að rugla mig í ríminu. En no worries, ég er að læra svo mikið á öllu hérna.

Þangað til næst...

Eigiði góðar stundir þarna á Íslandi. Ég er farinn að tana. :)

Sunday, September 11, 2011

Condarco vs. Borgó og helgin mín í stuttu máli







Vs.



Condarco; Hér í skólanum er það talið hinn argasti dónaskapur að sjúga upp í nefið og flestir ganga um með vasaklút til þess að snýta sér í.
Borgó; Í Borgó væri það talið frekar ósmekklegt að láta vaða í miðri kennslustund. Öllum er slétt þótt þú sjúgir upp í nefið.


Condarco; Hér reykir stór hluti skólans. Það er eiginlega talið frekar spes að reykja ekki.
Borgó; Miðað við Condarco þá eru reykingamenn i Borgó í miklum minnihluta


Condarco; Hér eru mjög sjaldan fullir skóladagar og öllum er slétt þótt þú komir of seint í tíma, og í kennslustundum er fólk lítið að pæla í að læra eitthvað.
Borgó; Í Borgó færðu seint ef liðin er ein sekúnta eftir að kennarinn lokaði hurðinni. Maður er “heppinn” ef einhver forföll eru á skjánum.


Condarco; Argentínumenn elska að búa til frídaga fyrir allt, þ.e. dagur barnanna, dagur nemendanna, dagur dýranna, dagur, kennarana, dagur ömmunar, dagur afans o.s.frv.
Borgó; Þú ert heppinn að fá að vera heima hjá þér á aðfangadegi.

Condarco; Hér heilsast krakkarnir með koss á kinn, og það þykir ekkert tiltökumál ef karlkynið gerir það líka.
Borgó; Í Borgó yrði heldur betur efast um kynhneigð þína ef þú myndir heilsa sama kyninu með þeim hætti!


Condarco; Hér ferðu ekki í sturtu eftir íþróttir. Það er ekki boðið upp á það.
Borgó; Í Borgó værirðu talinn ógeðslegur ef þú færir ekki í sturtu eftir ræktina/íþróttir.


Condarco; Í þessum skóla er maður stundum frá 8 – hálf níu á kvöldin, jafnvel þótt maður hafi byrjað kl 8 um morguninn í skólanum.
Borgó; Skóladagur frá 8-4 er talinn fulllangur.


Condarco; Ekkert félagslíf
Borgó; Þau reyndu þó.


Condarco; Hér þarftu nánast að fá skriflegt leyfi frá skólameistaranum og kennara til þess að fá að fara á klósettið í miðri kennslustund.
Borgó; Í Borgó er minnsta mál að fara á klósettið í tíma, og í fæstum tilvikum fer nemandinn á klósettið.

Condarco; Hér er skylda að vera í skónnum innandyra. Ef þú ert ekki í skóm ertu fluttur til skólastjóra og rekinn heim.
Borgó; Ef þú sést ganga inn í skófatnadi þá hleypur Danelíus á eftir þér og tæklar þig og þú fluttur á spítala i framhaldi.

Condarco; Í hverjum frímínútum og hvenær sem þau hafa tækifæri á, fara krakkar út í fótbolta hér eða spila blak.
Borgó; Í frímínútum hanga krakkar í salnum, drekka kók og éta alla óhollustuna sem sjoppan býður upp á. Stundum ef maður er svakalega duglegur fórnar maður sykurleðjunni og fer í ræktina til þess að safna upp íþróttaeiningum.





Vikurnar mínar eru að verða svolítið allar alveg eins og ekkert mikið að gerast.

Þessi helgi skar sig samt svolítið mikið útúr öðrum dögum. Ég var með Germán vini mínum og hans í bænum, fórum út að borða. Töluðum saman og höfðum ótrúlega gaman. Við ráfuðum um bæinn og þar var margt um manninn. Allt troðið. Eftir á fór ég og Ger í taxa heim til hans og þar var matarboð og vinafólk þeirra í heimsókn. Við átum pizzu og svo var sjúklega góð kaka í eftirrétt. Síðan fórum við og spiluðum GTA: Vice City, ég er fáránlega góður í honum, nei ég kann meirisegja svindl og allt! Eftir að hafa spilað í smá tíma fórum við og horfðum á mynd. Ég var byrjaður að sofna í sófanum svo ég fór inn í herbergi og svaf svo vært og eins og ég hafði aldrei fengið að sofa áður.
Morguninn eftir vaknaði ég frekar seint. Fékk mér morgunmat, heita mjólk og brauð með dulce de leche. Klikkar ekki. Síðan fórum við með mömmu Germáns og keyptum empanadas til að hafa í hádegismat. Empanadas er ótrúlega gott, ekta argentískt.. svona hálfmáni í einskonar smjördeigsbrauði fyllt með kjöti og osti.
Eftir að hafa borðað mig fullsaddan stungu þau upp á að fara í ísbúð, nú... auðvitað til þess að við myndum nú ekki alveg deyja úr hungri. Við settumst síðan niður á Plaza Pringles í hitanum og löptum á ísnum.
Síðan fórum við heim og skiptum um föt því við vorum að fara í sveitina að spila paddle, sem er einskonar tennis en samt ekki. Það var mjög gaman, fáránlega heitt og maður varð þreyttur og þyrstur frekar fljótt.
Ótrúlega falleg sveit, með cherry trees, fjöllum og náttúrufegurð. Eftir þetta fórum við og létum þrífa bílinn og leigðum síðan myndir. Höfðum kósý og horfðum á þær með einn ískaldann Coronu við hönd. Síðan fórum við og hittum frændfólk þeirra því Elias (bróðir Germans) var þar.
Eftir þetta fór ég heim til minnar fjölskyldu því gamanið var búið og ég fór að sofa.

P.S. Ég er að undirbúa hungurverkfall.