Þegar líður að jólum eru flestir að undirbúa sig fyrir hátíðarnar, stressið komið á fullt og það þarf að kaupa seinustu gjafirnar í hvelli. Fólk þarf helst að kaupa sér ný jólaföt á hverju ári svo það lendi nú ekki í þessum svokallaða jólaketti og á meðan foreldrarnir reyna að skipuleggja jólin, er reynt að þagga niður í unga fólkinu með því að gefa þeim eitthvað gott í skóinn, með því skilyrði að þurfa að vera stillt, "annars fáið þið sko kartöflu í skóinn!".
Desember er mánuðurinn sem að fjölskyldan og vinir skipta hvað mestu máli. Kærleikurinn sem ríkir í fjölskylduboðum, þegar allir eiga yndislegar stundir með sínum allra nánustu, er ómetanlegur. Hver fjölskylda hefur sínar jólahefðir yfir hátíðirnar sem breytast aldrei, hvort sem það er að borða möndlugrautinn saman, fara í kirkju fyrir eða eftir jólakvöldmat eða keyra út pakkana á þorláksmessu eða á aðfangadegi. Allt þetta er svo dýrmætt í hjarta fólks og er eitthvað sem að ekki má hrifsa frá manni.
Það að vera í allt öðru landi, með öðru fólki með annan hugsunarhátt, með allt öðrum hefðum, í 40 stiga hita og sól, með lítið sem ekkert af jólaskreytingum, er það erfiðasta sem ég hef gert. Þetta eru ekki jól fyrir mér. Það vantar allt sem gerir þetta jólalegt. Það vantar allan jólasnjóinn, snjókarlanna og snjóenglanna á jörðinni. En þetta er áhugavert engu að síður - að upplifa jól burtu frá heimalandi sínu er stórfengleg lífsreynsla. Söknuðurinn yfir hátíðarnar getur hinsvegar breyst í sterka heimþrá þegar maður sér fyrir sér nýbökuðu lakkrístoppana hennar mömmu, dropapiparkökurnar í beljuílátinu sem segir alltaf MUU hvert skipti þegar maður opnar það. Allar billjón seríurnar sem að mamma og Kristín eru vanar að setja upp í glugga. Svo ég tali nú ekki um fyrsta í aðventu þegar mamma þeytist um allt hús, setur upp jólagardínurnar og tekur jólahreingerninguna miklu með Elvis í botni.
Það er svo margt við jólahátíðirnar sem er svo ótrúlega dýrmætt fyrir manni, og fyrir þessar stundir er ég endalaust þakklátur. Það koma jól eftir þessi jól, og ég er strax byrjaður að hlakka til þeirra.
Jólin mín hér í Argentínu munu fara fram ekki í minni heimaborg, heldur San Juan hjá fjölskyldu mömmu minnar. Ég mun fara þangað mjög fljótlega í næstu viku, á mánudeginum eða þriðjudeginum. Ég vona að ég muni fá pakkann sem að mamma mín sendi út sem inniheldur jólagjöf fjölskyldunnar og síðan smávegis íslenskt nammi fyrir mig, því að íslenskt nammi læknar öll sár.
En svona til þess að segja ykkur smávegis frá því hvað ég hef verið að gera undanfarna daga er afskaplega lítið. Ég fór í útskrift hjá bróður mínum þar sem hann er að fara úr colegio í universidad og það var mjög stórt. Fjögurra rétta máltíð og læti. Fyrir þessa útskrift komu heil ættin frá San Juan eins og hún lagði sig og sváfu öll hér inni í þessu húsi. Daginn eftir fórum við til Potrero sem er ótrúlega falleg sveit við hliðin á, þar sem við drukkum mate og fórum síðan í hálftíma bátasiglingu. Um daginn ákvað ég að gerast svo klár, eins og ég er nú alltaf, og taka hádegislúrinn minn úti í garði. Auðvitað varð það til þess að ég skaðbrann allur og var viku eftir á að jafna mig og aðra hálfa viku að skræla allar dauðu húðflyksurnar burt. Jebb, hljómar vel! Ég er allavega kominn í langþráða sumarfríið þangað til í enda febrúar. Ég mun fara í ferðalag með fjölskyldunni, ekki víst hvort það sé norður eða suður Argentína. Ég held þó að suðrið verði fyrir valinu þar sem að 50-60 gráða hiti norðursins mun ganga að mér dauðum, og þá er ég ekki að djóka. Sólin er semsagt orðin minn helsti óvinur og er ég búinn að fjárfesta í góðri sólarvörn 50+. Ég ætla ekki að hafa þetta blogg lengra, vegna þess að það er ekki mikið að segja frá eins og er.
Að lokum vil ég senda sérstaka kveðju til pabba og mömmu, Kristínar og Sigrúnar. Hafiði það yndislegt um jólin. Ég mun mögulega koma til með að skella á ykkur jólakveðju, ef ég kemst í tölvu þarna í San Juan. En ef ekki þá vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, hlakka ótrúlega mikið til að sjá ykkur öll í júlí. Ég sakna ykkar.
Með jólakveðju,
ykkar Úlfar
Þú ert yndislegur hóhó gleiðleg jól..Kv rósa frænka
ReplyDeleteohh það verður einhvað skrítið að hafa þig ekki heima á jólunum :(
ReplyDeletesakna þín phuhuh !
Svo færðu afmælis+jólapakkann frá mér þegar þú kemur heim! ég LOFA:)
te dua
Gleðileg jól og vonum að jólakortið skili sér fyrr eða síðar..! Njóttu jólanna og tímans vel... öfunda þig samt að hafa sól og hita
ReplyDelete-Anna
Mér leið eins og ég væri að lesa pistil einhversstaðar á fjölmiðlasíðu, ekki þitt blogg í byrjun - ert svo góður penni heheh :)
ReplyDeleteEn gleðileg jól ef maður heyrir ekkert í þér í næstu viku og hafðu það gott, vonandi að jólaandinn skili sér aðeins til þín :*
Kv. Bára
Sammála Báru, ert svo góður penni haha :) En frábært blogg eins og venjulega frændi, vona að þú skemmtir þér um jólin í San Juan
ReplyDelete-Kristín Helga
Já Úlfar minn svona er að vera einhvers staðar á hjara veraldar í þessum tíma árs .Það er örugglega skrítin tilfynning en það koma jól eftir þessi jól og þá verður allt eins ,eins og hefur verið,ár eftir ár hjá okkur ,svo það er um að gera að njóta þess að upplifa eitthvað annað einu sinni.En ég og Elvis erum búin að gera eldhúsið klárt. En beljan er nú eitthvað að klikka ,alveg hætt að baula þegar maður opnar hana haha..En hafðu það bara sem allra best í sólinni, það er nú eitthvað sem sést ekki hjá okkur núna.Alltaf gaman að lesa bloggið þitt bið að heilsa öllum heyrumst og sjáumst bráðlega bæbæ...:)Kveðja Mamma..
ReplyDeleteHæ elskan... Ég segi bara eins og aðrir, það koma venjulegu jólin eftir þessi jól...en það hlýtur að vera spennandi að sjá annara menningu á svona, að okkur finnst heilögum tíma...þar sem allt á að vera eins og við erum vön.... sól og jól= rangt.. en Úlli minn bara Gleðileg jól og skilaðu jólakveðju á alla þína þarna..... hlakka til að hitta þig í júlí og heyra um allt og sjá myndir af öllu...þetta verður þér dýrmætt til frambúðar...Kveðja Birna frænka
ReplyDeleteElsku Úlfar minn ég og mín fjölskylda óskum þér gleðilegra jóla og farsælt komandi ár . Hlökkum til að hitta þig í júlí. Erum farin að sakna þín, knús og kram
ReplyDeleteÞað sem maður lærir á því að skoða heiminn er að það eru margar leiðir að öllu. Það er hægt að gera hluti á marga mögulega vegu og það að telja "sína leið" ekki "einu leiðina" er ómetanlegt veganesti út lífið. Fjarlægðin kennir manni betur en nokkuð annað að meta það sem maður á.
ReplyDeleteNjóttu hverrar mínútu og gættu þess að taka argentínsku jólunum með áhuga og opnum huga. Það er hægt að halda jól á svo marga vegu og það engin ein leið "rétt" heldur margar leiðir.
Kveðja,
Siggi frændi
Ég táraðist smá þarna í byrjun. Mjög fallegt blogg. Gleðileg argentísk jól.
ReplyDeleteJana (Ekvador)