Monday, November 21, 2011

Fjölgum helgidögunum í þrjá!

Helgar hjá mér eru oftast jafn viðburðarríkar og virkir dagar eru innihaldslitlir hérna í Argentínunni. Það er ekkert svakalega langt síðan ég bloggaði seinast vil ég meina, en ástæðan fyrir því að ég blogga núna er smávegis til þess að hlífa ykkur fyrir bunu frá morðlöngu og þ.a.l. drepleiðinlegu bloggi sem ég myndi þá gera ef ég myndi fresta því að skrifa og draga þetta á langinn.

Ég er nefnilega hættur að vera jafn sniðugur og ég var fyrsta mánuðinn að skrifa í dagbók dagsdaglega. En það er í lagi með þetta þrusuminni sem ég nú hef! (lesist að sjálfsögðu í kaldhæðni)

Til að byrja bloggið á skuggahliðunum hef ég þær fréttir að færa að nú hef ég verið hér í heila 3 mánuði. Sem hafa liðið líkt og 3 vikur. En samt ekki. Þetta er bæði fljótt og lengi að líða í bland. Já, það meikar alveg sense. Á erfiðu tímunum líður tíminn alveg fáránlega hægt, sem eru t.d. þegar ég þarf að vakna á morgnanna (eða um hánótt að mínu mati) klukkan sex og klæði mig í djöfullegu sparifötin sem ég þarf að klæðast í skólanum. Byrja svo daginn á hálftíma bænastund og fánasöngli við anddyri skólans. Eftir það sit ég svo í skólastofunni - fæ krít, tennisbolta eða jafnvel stól í grímuna ef bekkjarbræður mínir hafa ekki tekið inn rítalínin sín þann morguninn. Annað dæmi er þegar ég sit heima, læt mér leiðast og hugsa um að stökkva í næstu rútu í nágrenninu og fara í óvissuferð hringinn í kringum Argentínu (Argentína er btw áttunda stærsta land í heimi) með forvitnina og ævintýraþorstann í fyrsta farteski. En mega það að sjálfsögðu ekki.
Eins mikla sjálfstæðishvöt og ég nú hef (ásamt flest öllum öðrum Íslendingum) kroppar það alveg heldur betur í þolinmæðina þegar mér er bannað að gera hitt og þetta vegna þess að það er "tan peligroso" eða "of hættulegt". En auðvitað er það bara vegna þess að ég þekki það ekki að vera rændur öllu, laminn í klessu eða jafnvel skotinn þegar ég labba um sakleysislegu Reykjavíkina mína. Í Argentínu er ég super ljóshærður, með blá augu og útlendingur og þar af leiðandi hlægilega létt að ræna mér og taka mig í þrældóm. (pabbi, ekki panikka.. það gerist ekkert!)

Ég hef t.d. mjög íslenskt hjarta þegar kemur að því að leggja hluti frá sér á glámbekk fyrir framan öll augu. Ég hendi frá mér öllu sem ég get þegar ég hef tækifæri til þess og er því frekar undrandi á því að hafa ekki orðið fyrir neinu hérna (Ég hef reyndar ekki gleymt þér heyrnartólsþjófur í Naschel! Þú mátt ennþá skemmta þér í helvíti!) eins kærulaus og ég er (hæ mamma, þú þekkir þetta!)

Ég tel það samt alls ekki slæmt að vera bæði super kærulaus og með minni á við býflugu. Og ég skal segja ykkur af hverju:

Alla mína grunnskólagöngu hef ég ábyggilega átt hátt í hundruði vettlingapara, hanska, sundskýlna, handklæðna, húfna og fleira í óskilum. Öll þessi föt hafa því farið beinustu leið í Rauða Krossinn og aðrar mannúðarhreyfingar (mínus öll þau föt sem mamma plokkaði upp af óskilamunaborðinu á foreldraviðtaladögum). Svo að mér, reyndar frekar ómeðvitað, hef heldur betur styrkt góðgerðarsamtök frá því á barnsaldri. (...you're welcome!)

Nú, aftur að aðalatriðunum. Svo ég komi nú að því sem þetta blogg er nú ætlað til, að þá fór ég til Mendoza með fjölskyldunni (helgina 4.-5. nóv). Mendoza er fjórða stærsta borg Argentínu og með mikinn fólksfjölda. Þar fékk ég ágætis útrás fyrir borgarbarninu sem býr inn í mér. Ég labbaði um bæinn og þar speglaðist í augunum mínum McDonalds og Subway merkin ásamt öllum helstu fatamerkjunum. Loksins eitthvað fyrir mig!
Ég ákvað samt að fá mér ekki burger, því ég er að reyna að koma í veg fyrir það að þurfa þrjú flugsæti í First Class farrými þegar ég sný aftur til Íslands. Í staðinn hugsaði ég bara um tvöfalda BigMac-inn með fljótandi majóneshrúgu, eins og ég fékk mér í Atlanta fyrir þremur mánuðum síðan. Ekki það að mér finnist McDonalds ostborgari einhvað sérstakur.

Í Mendoza fór ég einnig í Zoologico eða dýragarð sem innihélt öll þessi helstu suðrænu stóru dýr, fíla, flóðhesta, ísbirni, gíraffa, tígrisdýr, pardusa, górillur, skógarbirni, sebrahesta, apa, svo eitthvað sé nefnt. Það var alveg nett. Ég gerðist að sjálfsögðu svo djarfur að taka allt upp á myndband og tala inn á þau þar að auki, eins sérstakt og það má hljóma.

Um kvöldið sátumst við svo fyrir utan einn veitingastað á miðri göngugötunni og drukkum ávaxtamjólkurdrykk með klökum - hættulega gott!
Þar hlustaði ég á Ástrala tala saman á sinni "bloody hell" ensku og naut þess frekar vel, enda getur orðið ansi þreytandi að hlusta á þessa spænsku, daginn út og daginn inn. Þótt hún sé nú komin ágætlega á leið. Ég get alveg vel orðið skilið allt og talað ágætlega, en oft með þó nokkur mistök í hverri setningu. Stundum líður mér eins og kínverskum nýbúa að reyna að tjá sig á íslensku. Þetta er samt ekki ennþá svo slæmt.. vonandi!

Nú, svo helgina eftir Mendoza fór ég í afmæli til besta vinar míns hérna á laugardaginn og Guð einn fær ekki einu sinni að vita hvað gerðist þar. Það toppaði allar djammsögurnar mínar á Íslandi og hér í Argentínu til samans.

(innskot: Ég skrifaði þetta blogg í kennslustund á blað með nýja fína pennanum mínum, skrepp frá í smá stund, kem aftur og penninn farinn. Takk fyrir þetta bekkjarbróðir! Ég skrifa þá bara með þessum rauða, fjandinn hafi það!)

Þessa helgi (18.-20. nóv) fór ég til San Juan og Jachál. Aðallega vegna þess að í Jachál var haldin mjög stór hátíð sem heitir Fiesta de la Tradición. Það var alveg nett hátíð, fullt af einhverju fólki í Folklore drögtum með sombreros að sveifla einhverjum klútum í loftið. Sound-ar smá strange en þetta var alveg töff sko. Þar var líka milljón og einn hestur og "gauchos" sem eru einskonar bóndar í gamladaga. Ég fýla alveg búninginn þeirra í tætlur og ætla að innleiða þetta til Íslands og búa til nýja tískubylgju. Gauchobylgjuna.

En annars segi ég bara allt frábært. Fínt að frétta hérna hinum megin. Ég er kominn með loftkælingu inn í herbergið mitt svo ég andast nú ekki úr uppþornun á meðan ég reyni að festa svefn í þessum hita. Jólastemningin í mér er ekki ennþá komin, þó ótrúlegt sé satt, enda erfitt í 30-40 stiga hitanum hérna.

Næsta helgi er mjög stór helgi hérna í skólanum, þá er Fiesta del Promoción hjá krökkunum sem eru að útskrifast úr colegio og eru að fara upp í university. Allt gott að frétta.
Og já, ég vil að fjölgað verði helgidögunum í þrjá - föstudag, laugardag og sunnudag!



Sendi hlýjar kveðjur til ykkar allra á Íslandi.

Þangað til næst!

Thursday, November 3, 2011

Argentíska afmælið mitt, kosningar, Naschel, dagblaðaviðtal & martröð San Luis-borgar

Jæja. Sæl veriði öll sem eitt.
Eftir fjölmargar eftirspurnir, væl og vol um að gera nýtt blogg ætla ég að láta verða af því. Það er búið að líða ágætlega langur tími síðan ég bloggaði síðast og aðalástæðan fyrir því að ég hef ekki haft tíma til að nenna því... ef það meikar einhvern sense.
Ég fresta því alltaf þegar ég ætla að byrja því að ég veit að það getur tekið metlangan tíma. En ég hef nú gert þó nokkurn slatta síðan ég bloggaði en ég ætla að sjálfsögðu ekki að skrifa um hvern einasta dag. Aðeins það helsta sem hefur gerst. Btw, ég hef verið að pæla í að byrja á video bloggi frekar. Hvernig lýst ykkur á það?

Dagarnir hérna líða alveg með eindæmum hratt, ég er búinn að vera hérna nú í 2 mánuði og 2 vikur en ég á mikið eftir. Venjulegasti dagurinn hjá mér er að vakna rúmlega 6 um morguninn og fara í skólann klukkan 7. Láta mér leiðast í skólanum, hlusta á iPod (sem er stranglega bannað) og/eða horfa á bekkjarbræður mína kasta krítum og stólum um alla kennslustofuna. Þeir eru samt allir mjög fínir strákar.

Þann 17. október fagnaði ég átján ára afmælisdeginum mínum hér í Argentínu. Fyrsta skiptið í lífi mínu sem ég fæ sól og 27 stiga hita í afmælisveðursgjöf. Mjög fínt það. Dagurinn minn byrjaði reyndar á því að vakna klukkan 6 og klæða mig í þessi hel***** spariföt sem ég þarf að vera í dagsdaglega (kv bitri gæinn) og fara í messu í kirkjunni við hliðiná skólanum mínum. Eftir það fór ég inn í stofuna og þar beið mín þessi fína dulce de leche kaka á borðinu, einum of girnileg. Graciella (enskukennarinn minn og einnig AFS sjálfboðaliði) sagði mér að nú ætla ég að fagna deginum mínum með strákunum í bekknum mínum. Rosa krúttlegt. Þeir voru líka ekkert að hata það að ég ætti afmæli að fá þessa köku og talca-gos og þar með missa af heilum sögutíma.
Eftir skóladaginn fór ég með fjölskyldunni minni á veitingastað sem heitir Buddha Longue og er eins og nafnið gefur til kynna með fullt af Buddha styttum og ótrúlega flottur staður. Þar fékk ég mjög góðan mat og gjöf frá foreldrum mínum, þennan fína Kevingston bol sem er merki í Argentínu fyrir íþróttina Polo, sem er íþrótt þar sem leikmenn spila einskonar golf á hestbaki. Betri útskýringu kann ég ekki. En þetta er víst ein sú dýrasta íþrótt sem hægt er að iðka. Aðallega vegna þess að þú þarft að burðast með helvítis hrossið hvert sem þú ferð um heiminn.
Eftir matinn fór ég heim í hús og við borðuðum ísköku og ótrúlega góðan jarðarberjavodkadrykk. Var ekkert að hata það. Um kvöldið eftir að hafa svarað milljón og fimmtíu afmæliskveðjum á Facebook (takk elsku fólk!) fór ég í bæinn og hafði það notalegt.

Talandi um Polo íþróttina, þá fór ég einmitt um daginn að horfa á heimsmeistaramót í Polo sem var að einhverjum ástæðum haldið hér í sveitum San Luis fylkisins. Þar var Argentína að keppa á móti Indlandi og að sjálfsögðu vann mitt land. Þar var fólk allsstaðar að, frá bretlandi, ástralíu, bandaríkjunum og fl. Var ótrúlega gott að heyra loksins einhvern tala proper ensku.

Hér er búið að vera þvílíkar kosningar á fullu og er það alveg frekar heilagt í Argentínu. Þú mátt til dæmis ekki fara út að skemmta þér á meðan og það er stranglega bannað að selja áfengi eftir klukkan 2. Í bænum var fullt af fólki með kosningarblöð og óþolandi bíll sem keyrði hring eftir hring og spilaði sama leiðinlega lagið aftur og aftur. En vegna þessa var lítið um djamm á mér.

Mánudaginn 24. október fór ég síðan í ferðalag með 3 öðrum skiptinemum hér í San Luis (Edoardo frá Ítalíu, Elisabeth frá Belgíu og Martina frá Austurríki) til bæjarins Naschel sem er mjög lítill og rólegur bær í 1,5-2 klst fjarlægð frá San Luis borgarinnar. Þar eyddum við viku í öðrum skóla (agricultural) og er hálfgerður sveitaskóli blandaður producción (vinna með mold, og allt sem tengist bóndastörfum) og economía (hagfræði obviously, stærðfræði og fl). Við vorum rosalega lítið samt í skólanum þessa viku því það var allir á fullu að skipuleggja hátíð sem var föstudag-laugardag og sunnudag. Ég gisti þarna á einskonar heimavist með fjórum öðrum strákum, síðan bættust við 3 aðrir. Mér leist ekkert svakalega vel á þessa heimavist, sérstaklega þar sem létt var að ræna hlutum frá öðrum og lenti ég heldur betur í því. Fínu dýru heyrnartólin mín sem ég keypti í Atlanta hurfu.
Sendi kveðju til þann sem stal þeim, hijo de puta!

Í Naschel eignaðist ég yndislega vini sem ég réttast sagt hefði ekki viljað yfirgefa. Mér leið rosalega vel þarna. Þessi bær er alveg beyond rólegur, ekkert slæmt gerist þarna og allir þekkja hvorn annan. Þetta er rúmlega 6000 manna bær, en samt heilsa allir hvor öðrum þegar það labbar framhjá.
Fyrsta daginn minn vann ég í drullunni og með milljón egg til að sjá hvort að unginn inní sé dauður eða ekki. Það gerði maður með einskonar lampa sem sýndi manni hvort væri. Mjög áhugavert.
Með vinum mínum í Naschel fór ég út að borða, heim til Cynthiu og borðuðum gnocchi, spiluðum monopoly og sungum I'm Yours með Gian Franco vini mínum. Á föstudeginum fórum við svo á feitt djamm, þar gerðist margt skrautlegt og eins óviðeigandi og þar er ætla ég ekki að láta það eftir mér að skrifa það á þessu bloggi. Þið megið spurja mig á Facebook eða einhvernveginn ef þið eruð alveg að deyja úr forvitni.
Það var alveg frekar spes að vera þarna í þessum litla bæ. Fyrsta skiptið sem mér leið virkilega eins og ég væri frægur. Mjög óraunveruleg tilfinning. Þarna hljóp fólk á eftir mér, kallaði nafnið mitt og heimtaði að fá mynd af sér með mér, tosaði í mig og beið í röðum eftir að fá að taka í hendina mína. Þetta er vegna þess að í svona litlum bæ koma aldrei manneskjur annarsstaðar að frá heiminum og það er mjög skrýtið að sjá allt í einu nýtt andlit.
Seinasta daginn minn fór ég svo með Gonzalez, vini mínum heim til hans og borðaði asado með fjölskyldunni hans. Það var mjög sorglegt að kveðja vinina eftir aðeins vikudvöl og er ég staðráðinn í því að heimsækja þau nokkrum sinnum áður en ég fer til Íslands. Í svona litlum bæjum er fólk með rosalega hlýtt hjarta og taka þig nákvæmlega eins og þú ert. Og það elska ég.

Á þriðjudaginn 1. nóvember fór ég og skiptinemarnir (Edoardo, Martina, Elisabeth og Martina) í viðtal hjá einhverju dagblaði hér í Argentínu sem er eitthvað rosa mikilvægt blað hérna. Þar var spurt okkur ýmislegt um jólahefðir okkar. Þemað var semsagt “Navidad lejos de casa” eða “Jól burtu frá heimilinu”. Eftir þetta ákváðum við, fyrst við vorum nú öll saman, að fara í bæinn og fá okkur eitthvað kalt að drekka – því það er byrjað að hitna allsvaðalega hér og hitnar alltaf meira og meira. Við töluðum saman í frekar langan tíma þangað til að við ákváðum öll að fara heim til okkar. Ég og Germán hittum síðan Ivönu sem er besta vinkona Germans og við fórum í Grido og ég fékk mér ís. Alveg besti ís sem ég hef smakkað, hef sagt það áður og mun segja það oftar.

Í gær, miðvikudaginn, 2. nóvember fór ég með pabba mín í útlendingastofnunina hérna í San Luis því að túristarvisað mitt er að renna út. Það er semsagt eitthvað vesen með visa-áritunina sem ég bjóst mjög vel við þegar AFS í Argentínu á í hlut. Ekki það skipulegasta í heimi, svo langt frá því. Þennan dag átti sér stað hræðilegur atburður hér í San Luis. 7 litlar stúlkur létu lífið í hörmulegu slysi þar sem strætisvagn keyrði í veg fyrir lest þegar hann var á leiðinni til Mendoza. 2 stúlkur slösuðust alvarlega. Þessar stúlkur voru allar í skólanum Santa María sem er semsagt í sama skólasystemi og ég nema bara stúlkuskólinn. San Luis borgarar allir sem einn eiga nú um mjög sárt að binda og ríkir mikil sorg hérna. Ég fór í messu í stærstu kirkjunni hérna í San Luis og hún var full upp að dyrum.

Í dag fór ég einnig í messu og þar var mun meira fólk, alveg troðið og leiddi það alveg út á götu. Fjölskyldur fórnarlambanna voru einnig á staðnum og Guð minn góður hvað þetta er sorglegt. Að sjá allan þennan sársauka og sorg sem fólkið er nú að ganga í gegnum. Hræðilegt. Eftir kirkjuna fór ég í kistulagningu hjá einni stúlkunni sem vinafólk okkar er skylt. Get ekki lýst þessu með orðum hversu sorglegt þetta er. En það verður ekki skóli hjá mér þangað til einhverntíman í þar næstu viku útaf þessu.

Innskot: Í dag var 35 gráður og sól, ég var við það að þorna upp.

Þessa helgi er ég mjög mögulega að fara til Mendoza svo ég hef mögulega eitthvað til að skrifa um í næsta bloggi.


Þangað til næst,
hafiði það gott á Íslandinu góða! :)


ps. ég vil komment! <3