Sunday, July 29, 2012
Seinustu dagarnir í Argentínu og heimkoman til Íslands
Ég er ekki með þessa bloggþörf eins og í byrjun enda hafa liðið 2 og hálfur mánuður núna síðan ég bloggaði seinast. Mér fannst ég endilega þurfa að búa til eitt svona lokablogg, en annars er ég kominn heim til Íslands. Þann 15. júlí var síðasti dagurinn minn í San Luis. Ég var ennþá að pakka ofan í tösku og það á seinustu mínútu. Mig langaði ekkert að fara. Ég var eiginlega ekki í góðri meðvitund um það að ég væri í alvörunni að fara eftir allan þennan tíma. Mér leið smá eins og ég væri að fara í smá ferðalag og ég kæmi bara aftur eftir viku. En nei.
Það kom að því, þau skutluðu mér upp á rútustöðina og þar var fáránlega mikið af fólki sem biðu eftir okkur skiptinemunum til að kveðja okkur. Margir grétu. Ég faðmaði besta vin minn og hann gaf mér trefilinn sinn sem er úr litum Bancouver (promocion-ið mitt í skólanum). Ég grét. Hágrét. Ég var eins og lítið barn með ekka. Ég kvaddi fjölskylduna mína og þau grétu öll og ég með þeim, þetta var skrýtin stund. Ég var alveg búinn að ákveða það að ég myndi ekki grenja þegar ég færi. Ég kom hingað brosandi og ég fer með fullt af frábærum minningum, fjölskyldu og mörgum vinum ríkari burt. Ég ætlaði að fara með bros á vör. En ég gat það ekki. Rútan var alveg að fara og ég var ennþá að faðma alla bekkjarfélaga mína. Ég gaf Pablo, vini mínum úr bekknum, hvítu solid peysuna mína sem honum fannst svo flott. Hann var sáttur með það. Ég var nánast dreginn inn í rútuna því hún var í alvörunni að fara af stað. Ég var síðan kominn inn í rútuna, svo fannst mér að ég væri ekki búinn að kveðja nóg. Svo ég ákvað að fara aftur inn í rútuna, þá var öskrað á mig að ég mætti ekki fara út aftur. Allir fyrir utan hlógu.
Ég steig upp í rútu með grátbólgin augu með Söru mér við hlið, mögulega í verra ástandi. Við föðmuðum hvort annað í rútunni. Sara var alltaf til staðar fyrir mig og ég var alltaf til staðar fyrir hana. Ég þakka Guði fyrir það að ég kynntist henni. Við hlustuðum á argentíska cumbiu og reggaeton á leiðinni og sváfum eins og ungabörn. Eftir 12 tíma vorum við komin að rútustöðinni í Buenos Aires. Við fórum inn og hittum aðra skiptinema, það var þrungið loft þarna inni. Allir skiptinemarnir saman komnir, nýbúnir að kveðja alla. Allir voru í rusli. Það var samt þæginlegt að hitta þau öll aftur.
Ég þurfti að kveðja Söru þarna, þar brustum við í grát aftur en ég veit samt að ég mun pottþétt koma til með að hitta hana aftur svo þetta var léttara en ég hélt. Ég sakna hennar samt á hverjum degi. Hún fór á annað campament heldur en ég með hinum ítölunum og öðrum þjóðverjum.
Ég hitti svo alla íslendingana, og sem betur fer vorum við saman í campamenti. Við töluðum saman á spænsku fyrstu dagana, það var skrýtið að tala íslensku allt í einu - það var eiginlega frekar erfitt. Síðan byrjuðum við smátt og smátt að tala íslenskuna bráðum.
Á þessu campamenti vildi ég alls ekki vera. Mér leið hálfföstum inni á milli tveggja heima. Nýbúinn að kveðja San Luis, á leið til Íslands. Mig langaði annað hvort að vera bara hjá mínu fólki í San Luis eða þá bara fara beint til Íslands. Þetta lokacamp hjálpaði mér ekki neitt og var eiginlega bara alveg tilgangslaust. Við fórum samt í eitthvað "city tour" um Buenos Aires sem var ágætt.
Loksins rann upp lokadagurinn og okkur var skutlað upp á flugvöll. Við Íslendingarnir vorum eina þjóðin sem allir voru með tvær stútfullar töskur af farangri. Við máttum hafa 23kgx2 og margir voru í mikilli yfirvigt. Við lentum samt hjá konu sem að hjálpaði okkur og var mjög kammó og næs og hleypti öllum töskunum inn án gjalds. Síðan kom upp fyrsta vesenið. AFS hafði klikkað eitthvað með að samþykkja flugið og við vorum ekki skráð inn í þessi flug. Að sjálfsögðu. Ekki bjóst ég við að þetta myndi verða áfallalaust ferðalag. Ég var samt mjög rólegur og notaði íslenska mjög svo notaða orðháttinn ,,Þetta reddast!".
Sem það gerði. Þetta reddaðist á endanum og við fórum sátt inn í flugvélina á leið til Atlanta, pakksödd eftir að hafa slátrað í okkur McDonalds á methraða. Með okkur í flugi kom fimmþúsund manna her þ.e. litlar 15 ára stelpur að fara í ferð til Disney lands. Þetta umkringdi mig með tísti og skrækjum alla þessa tólf tíma. Mig langaði að deyja. En samt bara fyndið þegar ég lít til baka.
Þetta leið samt óvenjuhratt þetta flug, ég svaf líka með headphone á mér allan tímann. Bjóst við því að vera útkrotaður í framan, svona "surprise" hjá þessum píum. En nei, ég slapp með það. Á Atlanta flugvellinum þurftum við að bíða í langri röð til þess að fara í check-inið, og svo loksins þegar við náðum því þurftum við bókstaflega að hlaupa með farangurinn í næsta færiband og þaðan í tollinn og koma okkur svo inn í flugvél. Við máttum engan tíma missa, enda fengum við 1 og hálfan tíma á þessum flugvelli. Sem er enginn tími, miðað við það hversu mikinn tíma fer í bið og raðir. Síðan tók við flug frá Atlanta til New York og það var frekar lengi að líða, þótt það var bara rúmlega 2-3 tímar. Ég var ennþá að tala spænskuna við flugfreyjurnar sem skildu auðvitað ekki orð í spænsku. Í New York áttum við nægan tíma eftir að hafa farið í gegnum strangan toll sem að gekk þó eins og í sögu. Við fengum okkur McDonalds og ég fékk mér minn langþráða caramel frappuccino á Starbucks og súkkulaðimuffins. Síðan tók við flugið frá New York til Íslands! Rúmlega 6 tíma flug. Í þeirri flugvél fengum við íslenskt vatn og skyr. Við vorum hæstánægð með það. Allt íslenskt var eins og gull í okkar augum núna.
Íslenski tollurinn og allt það gekk náttúrlega bara drulluauðveldlega eins og alltaf. Eftir allt þetta vesenisbrölt í Ameríku var þetta varla tollur á Íslandi. Við vorum smá að drífa okkur að hitta fjölskyldurnar okkar sem biðu við hliðið. Fyrst fórum við smá í fríhöfnina að kaupa eitthvað gúmmelaði. Við kvöddumst svo áður en við hittum fjölskyldurnar, og "semiskáluðum" fyrir að hafa lifað af þetta ár og komið sterkari til baka. Við föðmuðumst. Það var komið að því. Stóra stundin var runnin upp. Þegar við komum út var okkur fagnað innilega og þar beið mín mamma, pabbi, Tóta og Rakel. Ég knúsaði þau vel og svo fórum við í bílinn. Þetta var skrýtin tilfinning. Ég var actually á Íslandi. Mér leið eins og að ég hafi haldið til Argentínu og kvatt þau "í gær". Þessi tími leið fáránlega hratt. Og til aðra skiptinema sem er að fara út, plís, njótið þess að vera þarna og geriði allt sem ykkur langar til að gera. Því þessi tími líður hraðar en vindurinn. Þið takið eftir því þegar þið eruð komin heim aftur hversu fljótt þetta leið.
Þegar ég kom heim til mín beið Perla litla eftir mér og ég knúsaði hana. Ég fór svo upp í herbergið mitt því að þar var afmælisjólagjöfin mín. Ég opnaði hurðina og fékk öskur í andlitið. Mér dauðbrá. Þar beið mín Alexa, Bára og Begga. Ég knúsaði þær. Í herberginu beið mín risastórt og þæginlegt nýtt rúm. Herbergið mitt var breytt með römmum og fullt af myndum af vinum mínum í Argentínu og fl. Ótrúlega flott herbergið mitt núna.
Við borðuðum mexíkóska kjúklingasúpu saman með doritos og osti, sem ég elska. Svo var kaka í eftirrétt sem að þau voru búin að baka fyrir mig.
Ég sakna Argentínu en er samt feginn að vera kominn heim. Hlakka til að byrja aftur í skólanum. Markmið mitt er að heimsækja Argentínu eða jafnvel flytja þangað eftir skólann.
Þetta var besta ár lífs míns og ég mun aldrei sjá eftir þessu. Ég er svo miklu ríkari eftir þetta. Ég kann spænskuna mjög vel, ég á tvær fjölskyldur, vini allsstaðar að í heiminum. Þótt að ég líti út auðvitað alveg eins þá veit ég að ég hef þroskast mikið af þessari reynslu, ég er sterkari manneskja fyrir vikið og ég tek ekki öllu sem sjálfsögðum hlut eins og ég hálfgerði áður en ég fór út.
Núna veit ég hvað raunveruleikinn býður upp á, ég hef séð það með eigin augum.
Ég lít björtum augum á framtíð mína.
Núna veit ég hvað ég vil.
Lífið er fallegt.
Kveðja..... frá Íslandi,
Úlfar Viktor
Subscribe to:
Posts (Atom)